Eydís Inga valsdóttir

Sérfræðingur í menntasamstarfi og löggiltur bókasafns- og upplýsingafræðingur

Kæru félagar, ég býð mig fram í stjórn Visku.Ég óska eftir þínum stuðningi til að að vinna að því að bæta kjör og líf félagsfólks okkar, sem og að leggja mitt af mörkum til að sjá til þess að menntun verði metin að verðleikum á Íslandi.

Um mig

Ég er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum og í Ölfushrepp en bý nú með fjölskyldunni minni, eiginmanni og tveimur börnum, í Kópavogi. Ég er með B.A. gráðu í almennri bókmenntafræði og sænsku frá Háskóla Íslands. Eftir grunnnám flutti ég til Svíþjóðar þar sem ég lauk M.A. gráðu í Norðurlandafræðum frá Uppsala háskóla og seinna lauk ég meðfram vinnu M.L.I.S gráðu í upplýsingafræði frá Háskólanum í Borås.Ég starfa nú sem sérfræðingur og teymisstjóri á Mennta- og menningarsviði Rannís þar sem ég vinn að framkvæmd evrópskra og norrænna menntaáætlana. Áður starfaði ég í Svíþjóð sem sérfræðingur á Alþjóðasviði Sænska háskólaráðsins (UHR), sem fulltrúi hjá Sendiráði Íslands í Stokkhólmi og sem verkefnastjóri hjá Norræna félaginu í Svíþjóð. Þar sinnti ég einnig starfi sjóðsstjóra Sænsk-íslenska samstarfssjóðsins og Sænsk-danska menningarsjóðsins. Hingað til hafa verkefni mín öll miðað að því að efla lýðræðislega þátttöku og alþjóðasamstarf, eða verið verkefnastjórnun og umsýsla sjóða á sviði sjálfbærni, skólaþróunar og
menningamiðlunar.
Ég hef alltaf tekið þátt í félagsstörfum og beitt mér fyrir því að gera hverjar þær aðstæður sem ég mæti betri. Fyrst með þátttöku í nemendaráði í grunnskóla en síðan þá hef ég sinnt margvíslegu sjálfboðaliðastarfi og setið í stjórnum félagasamtaka.

Málefni

Félagsmenn Visku sinna mikilvægum og fjölbreyttum störfum á öllum sviðum samfélagsins og ég vil beita mér fyrir því að Viska verði áfram öflugur málsvari fyrir þennan fjölbreytta hóp sem á stóran þátt í því að Ísland sé samkeppnishæft land og að hér sé gott að búa. Ég tel afar mikilvægt að við höldum áfram þeirri stefnu sem hefur verið mótuð, þar sem jafnvægi milli vinnu og einkalífs er styrkt enn frekar. Allir einstaklingar eiga að hafa rétt til jafnræðis á vinnumarkaði og njóta þess um leið að sinna fjölskyldulífi og öðrum mikilvægum hugðarefnum. Þetta er grundvallaratriði í að skapa samfélag með jöfnum tækifærum. Mín alþjóðareynsla hefur líka sýnt mér mikilvægi þess að við liðkum fyrir því að ungt fólk sæki sér menntun erlendis án þess að bitni á efnahagslegri stöðu þess vegna íþyngjandi
afborgana af námslánum.
Ef mér verður treyst fyrir setu í stjórn Visku mun ég leggja áherslu á eftirfarandi:• Að það borgi sig að mennta sig – menntun á að vera metin til launa og leiða til þróunnar í starfi• Að áfram sé unnið að jafnvægi og samræmingu vinnu og einkalífs - með styttri vinnuviku, lengra fæðingarorlofi og aðgengi að námi og endurmenntun sem tekur mið af aðstæðum fólks á ólíkum skeiðum lífsins.• Að námslánakerfið styðji við stúdenta og afborganir íþyngji ekki félagsmönnum - tekin hafa verið góð skref en mikilvægt er að halda þeirri vegferð áfram.• Að Viska sinni virkri hagsmunagæslu og bjóði félagsmönnum sínum upp á framúrskarandi þjónustu.

Hafa samband

Ég tek glöð á móti samtölum og skilaboðum svo endilega hafið samband ef einhverjar spurningar vakna.